Nú er úti veður vont

10. desember 2007

Fyrirsögn kvöldsins á mbl er ansi skemmtileg: Þök fjúka og veður er slæmt. Mjög rökrétt, mun rökréttara en t.d. "Þök fjúka - veður ágætt".

En - ég elska svona veður. Það minnir mig á heimaslóðirnar. Eins og minningarnar eru frá pjakksárunum heima í Neskaupstað, þá var alltaf annaðhvort fullkomlega algjörlega snarbrjálað veður þar sem hús grófust undir 18 metra jafnföllnum snjó og fólk fauk öskrandi út í hafsauga - eða brakandi sólskin, logn og hiti. Aldrei þetta gráa, dauða "ekkert veður" sem er svo voðalega vinsælt í Reykjavík.

Og einmitt núna er þægileg stemning á Hagamel. Náttföt, djass, jólaseríur, piparkökur í ofninum, kertaljós og rigningarbarningur á gluggunum. Næstum því fullkomið - aðeins eitt sem vantar...


Tjáskipti

Miss G

Þessa stemmningu þekki ég frá Stöðvarfirði. Ef það var ekki snjór upp í mitti og ófært í skólann sem var í sömu götu, eða rafmagnslaust í þrjá daga, snerist lífið bara um endalausa sól og hornsílaveiðar. Ansi há karmaskuld sem ég stofnaði til þar, líka við marhnútaveiðar niðri á bryggju. Þá var *vinsælt* að láta þá reykja eða totta karamellusleikjó. Ég er enn með móral. Og það var stuð í kaupfélaginu. Ó, já.

Hugi

Aaah.. Hornsílaveiðar - reykjandi marhnútar - ófært í skólann. Jahéddna, voðalega hljómar þetta allt saman kunnuglega :-).

Miss G

Those were the days... :-)

Hugi

Úff segðu. Var að skreppa út í 10-11 að sækja hveiti. Vil bara ítreka að það er alveg æðislega súrrealískt veður úti.

Kolla

Var að detta inn úr dyrunum. Veðrið er æðislegt. Maður verður svo ferskur á því að fjúka útum allt. Rétt náði að slengja líkamanum í handriðið og krækja í það fótunum við stigaganginn minn áður en ég héldi áfram niður Háaleitisbrautina. Mig langar ekkert að fara að sofa!

Miss G

Það hefði verið flott ef hveitipokinn hefði opnast á heimleiðinni. Ég heyri bara gnauðið í veðrinu hér uppi á 4. hæð og ætla ekki að reyna að fara að sofa fyrr en það er gengið niður. Nei, sko, fjúkandi belja.

Barbie

I hear you brother! Uppáhalds veðrið í öllum heiminum! Fátt kósíara og engin kvöð á útiveru.

Kyngimögnuð

Mig grunar það hafi vantað sherry í fallegu kristalsstaupi sem klingir í þegar slegið er létt á og stirnir á bæði blýglerið og sherrytárið þegar kertaljósið flöktir við vindgnauðina sem berst inn um óþétta glugga vesturbæjarblokka. Nema .. já, sko .. og þó .. gæti verið .. ah, nei .. ætli það!?! 107 er málið ... var sjálf að hlusta á brjálæðið í gærkvöldi við Ægisíðuna. Það var undarlega rómantískt í sínu óhemjukasti. Elska líka svona kraftveður, það er einfaldlega ekki annað hægt.

Hugi

Já, Kolla, svona veður er yndi. Og Barbie - þér að segja þá hreinlega veit ég ekki betra veður til útiveru - ef maður sé rétt klæddur. Að fara í fjallgöngu þar sem maður þarf að berjast á móti regnstormi af öllum kröftum, ég verð tífaldur af orku við það. Hehe, jahá Miss G., var það þangað sem beljan mín fauk! Ja hvur fjandinn. Kyngimögnuð - jújú, eigum við ekki bara að segja að það hafi verið sérríglas ;-). Og 107 rúlar vissulega!

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin