Laugardagskvöld í Hagamel

8. apríl 2006

Það er þvottadagur í dag. Það er auðvitað aðeins af illri nauðsyn, ég hef síðustu daga klæðst áhugaverðum fötum úr leyndustu kimum fataskápsins míns og það er núna orðið nokkuð ljóst að þar er ekkert lengur að finna sem ekki er annaðhvort g-strengur, bleikt eða með myndum af brunabílum á.

Þetta verður stórframkvæmd og ég var beðinn af Seðlabankanum að fara ekki í hana núna, þar sem ekki er bætandi á verðbólguna, en ég verð. Það hætti að sjást í þvottakörfuna fyrir þvotti snemma í vor - og ég hefði getað svarið að þegar ég leit síðast á þvottafjallið í lok mars varð ég var við hreyfingu. Líklega þvottabirnir. Ég gleymdi að eitra í haust.

Ég ætlaði að reyna að sleppa við að þvo sjálfur og fór með verkið í útboð en tilboðin sem bárust voru flest langt yfir kostnaðaráætlun, enda verið að bjóða út Héðinsfjarðargöng á svipuðum tíma. Tilboðið frá Íslenskum Aðalverktökum hljómaði reyndar ágætlega, en þeir voru því miður aðeins með erlenda starfsmenn frá starfsmannaleigu og ég fékk ekki leyfi húsfélagsins til að reisa starfsmannaþorp í garðinum. Pempíur sem þessir nágrannar mínur eru.

En ef ég tek þetta skipulega þá ætti ég að ná að klára fyrir sumarið, þ.e. sumarið 2008. Ef ég verð ekki í millitíðinni étinn af kexrugluðum þvottabirni, útúrdópuðum á lyktinni af íþróttafötunum á botni þvottakörfunnar.


Tjáskipti

Mjása

Mæli með að þú setjir ABBA á fóninn og skellir þér svo í þvottastúss. Er ekki að djóka. Allt verður mun skemmtilegra og auðveldara ef Benny, Björn, Agnete og Ann-Frid eru með í för. Myndi byrja á Does Your Mother Know, If It Wasn't For The Nights og As Good As New og fara svo smátt og smátt út í rólega pakkann og enda á The Winner Takes It All. "I don't want to talk, if it makes you feel bad". Þú þarft hreina vasaklúta þegar hér er komið við sögu.

Lindablinda

Eina ABBA lagið sem ég þarf EVER... er: Thank you for the music.... þá fer ég í trans og húsverkin gerast að sjálfu sér vegna þess að ég er prinsessa. Setja lag á, fara í stellingar ( í leifunum úr skápnum) veifa hendi konunglega og PÚFF- att bú!!

Hugi

Takk fyrir ábendinguna ég prófa ABBA næst. Í kvöld var það Grigory nokkur Sokolov sem hélt mér félagsskap yfir þvottinum, hann stóð sig vel þar sem hann refsaði konsertflygli af miklu morgundagsleysi. Og ég þurfti ekki að óhreinka vasaklútinn eða frotté-handklæðið.

Lindablinda

Á það alveg eftir að prófa ....að REFSA einum flygli eða svo.......... Veit ekki alveg hvernig ég á að bera mig að, en er viss um að ég fæ "helpful tips" HÉR.

Kalli

Dancing Queen er toppurinn með ABBA! Ef þú drepur grey þvottabjörninn; má ég þá fá húfu úr feldinum? Annars væri ég alveg til í að taka við greyinu. Lifa svona kvikindi ekki annars í kringum þvottakörfur?

Stefán Arason

Mikið svaðalega er þetta nú orðið fínt hjá þéd gæskur! (sko tjáskiptaformið) Gangi þér vel með þvottabirnina og hýbíli þeirra. Flygilmonólog: "refsaðu mér, úúúújé!...meira meira!...já þarna í kringum mið c-ið...meiri kluster MEIIIRIII KLUSTER!!!...já, skrapaðu í fína lakkið mitt..." etc.

Jón Hafliði

Hugi hvernig stendur á því að allir íslenskir stafir koma út sem spurningamerki þegar ég skoða síðuna þína?

donPedro

Vel hefur reynst að lauma eigin þvotti í þvott annarra í sameigninni. Dæmi: Anna bankar uppá hjá þér og segir: Hugi minn, þetta var óvart í þvottinum mínum, sýnist þetta allt vera kyrfilega merkt þér, hér eru 2 peysur, buxur, g-strengur og 2 frottéhandklæði. Allt vandlega brotið og straujað. Passaðu bara að setja ekki föt sem aðrir gætu girnst í þessa svikamyllu. Þá veistu ekki fyrr en Anna gegnur um í uppáhaldshreindýrapeysunni þinni, eða mMargeir hoppandi út um allt í Prada-þvengnum þínum.

Hugi

Kalli, þvottabjörninn reyndist vera kvenkyns og okkur varð vel til vina í gær. Hún reyndi ekki að bíta mig, sem er einmitt eina krafan sem ég geri til kvenkynsins, svo við fórum á Kaffibarinn og fengum okkur öl og þaðan á Nelly's þar sem við dönsuðum til fimm í morgun. Við ætlum að kíkja á sinfóníuna í næstu viku. Hvað gerist eftir það veit ég ekki, en ef þetta gengur ekki upp, þá skal ég láta hana fá símanúmerið þitt. Gylfi tvíburi er að tryllast úr afbrýðisemi, svo ég veit ekki hvað verður. Pedro, ég stundaði þetta raunar með góðum árangri. Trikkið var að vita hvaða nágranni átti þvottavélina næst og gleyma svo þvottinum í vélinni. Ef ég gerði þetta þegar íbúðir 14 og 22 áttu vélina, þá fékk ég þvottinn samanbrotinn og straujaðan. En svo hætti ég þessu eftir að ég komst að því að stelpan í íbúð 3A stal alltaf nærbuxnapari þegar hún komst í þvottinn minn og hringdi svo um kvöldið og andaði í símann. Það truflaði mig. Takk Stebbi :-), ég er sáttur við útlitið. Og Linda, ég skal segja betur frá því fljótlega hvernig herramaður refsar flygli. Það er mikil list.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin