Opinn kóði

18. ágúst 2009

Umferðarstofa er svöl. Svo svöl að við göngum í úlpum á daginn, forstjórinn okkar er kallaður "Svali S. Svalsson" í daglegu tali, orðið "svalur" stigbreytist "svalur, svalari, Umferðarstofa" og við erum með sjúkraliða í þjónustuverinu sem framkvæmir bráðaaðgerðir á kvenfólki með kiknaða hnjáliði eftir kynni við einskæran svalleika goðumlíkra þjónustufulltrúa okkar.

Og hvers vegna erum við svöl. Jú, fyrir utan geislandi gleðiorku, hátt hlutfall rauðhærðra, góða húð og há, brosmild enni, sem eru til marks um gáfur og hógværð, erum við byrjuð að opna grunnkóðann okkar og setja á Google Code.

Og afsakið, en mér finnst það svalt.

Þetta er búið að vera á dagskrá í nokkurn tíma, enda finnst mér það alveg dagljóst að kóði sem skrifaður er af ríkinu (eða fyrir það) og greiddur af almenningi á að vera almenningseign.

Nú, og með því að gera kóðann okkar frjálsan og opinn:

  • Gefst öllum kostur á að nota hann.
  • Endurnýting táknar sparnað. Hvað ætli sé t.d. búið að skrifa óþarflega mörg forrit á Íslandi til að lesa gögn úr þjóðskrá?
  • Meiri kröfur eru gerðar til okkar, að vanda til verka og smíða læsilegan, áreiðanlegan kóða.
  • Og ef villur leynast í kóðanum er líklegra að þær finnist. Betur sjá augu en auga. (en það eru samt auðvitað engar villur þar *hóst*)
  • Og við fáum vonandi eitthvað af kóða til baka frá samfélaginu þegar fleiri fara að gera slíkt hið sama.

Enn sem komið er er lítill hluti af hugbúnaði okkar kominn á Netið en við leggjum mikla áherslu á að kóði sem við smíðum endi opinn og safnið mun stækka hratt á næstu vikum.

Ég er að vona að sem flestar ríkisstofnanir fylgi fordæmi okkar og ráðist í að opna kóða hjá sér. Því að stofnanir með lokaðan kóða eru pappakassar.

http://code.us.is/


Tjáskipti

Bergur

Þetta er glæsilegt framtak. Á svo ekki að fara að bjóða manni í eins og einn kaffibolla til að skoða kóðann?

Hugi

Þakka þér, þakka þér. Og hér er alltaf heitt á könnunni, vertu alveg húrrandi velkominn. Verð þó að krefjast þess að þú takir með þér a.m.k. einn súkkulaðisnúð eða hálft sérbakað vínarbrauð.

Atli Páll Hafsteinsson

Svalt!

Hugi

Jájájá, húrra fyrir kóðagerðarmanninum! Og svo allir saman... Þeeeegaaaar ökutæki skráist, skrárgerðarmaður tekur, fyrst af öllu rétta heildargerðarviðurkenningu... o.sfrv.

hildigunnur

Fékkst alveg marga þumalputta upp á ircinu :D

Elín Björk

Þetta finnst mér að Veðurstofan eigi að taka til fyrirmyndar, enda búið að eyða ómældri vinnu og fúlgu fjár í kóðagerð þar. En farðu nú að drífa þig í kaffi til okkar (við erum fjögur þú einn... auðveldari að koma þér á milli staða!) - ég lofa kaffi OG meðlæti ;)

Hafsteinn

Mikið væri gaman ef skilanefndirnar tækju þetta til fyrirmyndar og tækju upp "Open Source"

Hugi

Hildigunnur, frábært :D. Og nú verð ég að spyrja af fávisku - er ircið ennþá sprelllifandi hérna heima? Elín, já - Veðurstofan má gjarnan taka þetta sér til fyrirmyndar, væntanlega mikið af spennandi dóti að komast í hjá ykkur :). Og já takk, þakka gott boð og er meira en til í kaffi - þú verður samt eiginlega að senda Daníel að sækja mig, ég á það til að gleyma mér yfir vinnunni þessa dagana. Búinn að svelta til dauða þrisvar í vikunni vegna þess að ég gleymdi að eta. Hafsteinn, já - það væri yndi. Og það er raunar fremur djúpur sannleikur í þessu, það ætti að opna alla stjórnsýsluna miklu meira en er í dag, hvort sem um er að ræða skilanefndir eða eitthvað annað. Flest gögn sem ekki falla beint undir persónuverndarlög ættu að geta verið opin.

Hugi

Bráðskemmtilegt: Ingi Gauti Ragnarsson er búinn að þýða eitthvað af kóðanum okkar yfir í C# . http://code.google.com/p/isdotnet/

Stefán Arason

Fallegt! Svo fallegt!

Hugi

Ekki jafn fallegt og þú, snúðurinn minn :).

hildigunnur

Hugi, játs alveg slatti af skemmtilegu liði á rásinni minni allavega. :D

hildigunnur

(þar eru fyrst og fremst tölvunördar, snilldarhópur)

Sveinbjörn

Ég verð á Skerinu innan skamms. Býðurðu mér í "Kjöt"?

Hugi

@hildigunnur Ah, kannski maður fari að henda sér á ircið aftur, hef ekki litið þarna inn í rúm tíu ár. Og skrík, hvað maður er orðinn gamall. @Sveinbjörn Vertu velkominn í "kjöt", láttu bara vita hvenær þú ert staddur hérna upfrá.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin