Nirvana

9. apríl 2006

Ég fylgdi leiðbeiningum Mjásu í gærkvöldi til að ná Nirvana. Það virtist vera að virka, því skömmu fyrir miðnætti fann ég fyrir magnaðri tilfinningu, þrá sem náði djúpt niður í kviðarholið á mér og beið þess að brjótast út, þannig að ég lagðist niður og bjó mig undir að upplifa andlega ljómun. Svo ropaði ég og tilfinningin hvarf. Ég virðist ekki þekkja muninn á alsælu og meltingartruflunum.


Tjáskipti

Lindablinda

Upplifði svona einu sinni fyrir utan Hlölla klukkan rúmlega fjögur á laugardagskvöldi. Hélt fyrst að ég hefi frelsast, en þá var það bara blessað beikonið.

Hugi

Nákvæmlega. Ég skrifaði þetta einmitt til að reyna að hjálpa afvegaleiddum búddamunkum sem gætu talið sig hafa öðlast ævarandi innri ró, en eru í raun bara illa haldnir af meltingartruflunum.

baun

falleg lítil saga, manni hlýnar öllum að innan...takk takk Hugi

Hugi

Það var svo mikið meira en velkomið, ég legg mig alltaf allan fram við að ylja fólki innvortis.

Kalli

Beikon veitir mér Nirvana... það útskýrir beikonfíknina fyrir mér! Gerist samt aldrei á Hlölla... en á Nonna... þar er Nirvana!

Hugi

Úff, Chili-bátur á Nonna er náttúrulega bara tveir-fyrir-einn-tilboð - Nirvana og Harakiri í sama pakkanum.

Lindablinda

.. ég var nú bara að tala um meltingatruflanir. Þær eiga það til að mæta á kantinn eftir Hlölla. Hef ekki prófað Nonna. Svo langt síðan ég djammaði.

Kalli

Maður þarf ekkert að djamma til að borða Nonna. Ég á mjög erfitt með að fara um miðbæinn án þess að éta einn Nonnabát. Versta er að ég á líka mjög erfitt með að hugsa um annað en beikon þegar ég kem inn á staðinn því það er margt annað en beikonbáturinn gott hjá þeim. Nonnabiti er að mínu mati reykvísk stofnun því þeir framreiða signature skyndibita borgarinnar. ENGIN ferð til Reykjavíkur er komplít án Nonnabáts. Ég ætti að vita það; ég bý í Kópavogi.

baun

gvöööð, og ég sem hef aldrei smakkað þennan mat. hef ég þá ekki lifað fram að þessu?

Kalli

Þú getur bara hvorki sagst hafa komið né búið í Reykjavík.

baun

"hvorki komið né búið í Reykjavík" ái - þetta var sárt!

Kalli

Einfalt að laga þetta! ;)

Hugi

Krakkar mínir, það er til sérstakir vefir fyrir svona umræður á Netinu. Þið megið skammast ykkar fyrir að láta svona hér á þessum virðulega vef. Þið eigið auðvitað að vera á http://www.skyndibiti.is/ .

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin