Viðvörun til foreldra
Að lesa vefi er góð skemmtun. En undirrituðum er þungt í skapi einmitt núna og sennilegt að eftirfarandi grein sé ekki við hæfi barna. Gera má ráð fyrir að í henni sé að finna myndrænar líkingar og gróft og niðrandi orðbragð þar sem fólki er líkt við aðrar tegundir spendýra eða líkamshluta þeirra. Börn skyldu ekki lesa greinina nema í viðurvist fullorðinna.
- Vefeftirlit ríkisins
Það er í gangi illvígt samsæri um að ræna íslensku þjóðina. Til tilbreytingar eru það ekki olíufélögin, bankarnir eða Alfreð Þorsteinsson sem lauma fitugum puttunum í vasana okkar, nei, þetta samsæri er runnið undan rifjum þess ágæta fyrirtækis sem fyrst hét "Póstur og Sími", síðar "Landssími Íslands" og í dag "Síminn"*. Í þessum skrifuðum orðum er ég einmitt að bíða eftir "þjónustuveri"** Símans - ekki í fyrsta skipti og því miður ekki í það síðasta.
Þegar hringt er í "þjónustuver" Símans svarar iðulega eitthvert náið skyldmenni Stephen Hawking og segir: Þú. Ert. Númer... fjórtán... Í. Röðinni. Svo hefst biðin. Og ég sver**** að talan sem á að gefa til kynna hvar ég er í röðinni hækkar stöðugt, því eftir að hafa verið hunsaður í hálftíma er ég iðulega orðinn númer tuttugu til þrjátíu. Og þrátt fyrir biðina reynir Hawking-mennið stöðugt að sannfæra mig um að símtal mitt sé eitt það mikilvægasta sem fyrirtækið hefur fengið og nái þeir ekki að tala við mig sé það meira og minna búið að vera.
Á meðan ég eyði ævinni í að svitna á eyranu fæ ég svo auðvitað að njóta spennandi og öðruvísi tónlistarsmekks "þjónustuversins", því ég neyðist til að hlusta á "verstöðina" mysþyrma allri minni uppáhalds tónlist með panflautum og sópransaxófónum. Það er þó jákvætt að á meðan maður bíður getur maður velt lífshlaupi sínu fyrir sér og íhugað veeeel öll mistökin sem maður hefur gert, það er alltaf jafn gaman. Ég er greinilega ólæknandi syndaselur og með Karma í miklum mínus, því ég neyðist stundum oft í viku til að hlusta á verstöðina spila "Take Five" á panflautur í fjórum-fjórðu. Ef Dave Brubeck heyrði þá hörmung mundi blóðið í honum kekkjast og valda bráðaheilablóðfalli og dauða á innan við 30 sekúndum.
En íhugum aðeins hvers vegna yfirmenn "þjónustuvers" Símans kjósa að hafa það jafn undirmannað og það augljóslega er (og er búið að vera a.m.k. frá því að ég hóf mín viðskipti við fyrirtækið fyrir allnokkrum árum). Því á meðan við Íslendingar bíðum í símanum eftir "þjónustu", þá er fyrirtækið með brögðum að hafa af okkur umtalsverðar fjárhæðir. Ef við gerum ráð fyrir að allan 8 tíma vinnudaginn séu að meðaltali 10 manns að bíða eftir "þjónustu", sem er hóflega áætlað, getum við reiknað út að 10 manns * 356 dagar á ári * 8 klst. á dag * 60 mínútur * 5 kr. pr. mínútu = 9 milljónir sem fyrirtækið stelur "löglega" frá þjóðinni með símareikningum. Bætum við það launakostnaði sem þeir spara með því að hafa "þjónustuverið" ekki fullmannað og þegar upp er staðið kemur í ljós að þjófnaðurinn er í heild upp á a.m.k. tuttugu milljónir á hverju ári. Þetta er m.ö.o. eina fyrirtækið (sem ég veit um) sem græðir á tá og fingri á slæmri þjónustu.
En til að ljúka greininni á jákvæðu nótunum, þá getum við a.m.k. þakkað fyrir hvað þetta óskabarn einkavæðingarinnar er alltaf rekið með miklum hagnaði. Það sýnir nefnilega hvað endurfædd ríkisfyrirtæki geta áorkað miklu með því að fara samviskulaust með viðskiptavini sína eins og þroskahefta simpansa, með fullri virðingu fyrir þroskaheftum og simpönsum.
Skrifað á meðan höfundur beið eftir "þjónustu" hjá "þjónustuveri" Símans.
* Til fróðleiks: Það kostaði þig nýlega nokkra tugi milljóna til erlends almannatengslafyrirtækis að breyta nafni fyrirtækisins úr "Landssíminn" í "Síminn" og merki þess í tvær bláar lirfur í 69-stellingunni. Þökk sé sparnaðinum og hagræðingunni sem fylgir einkavæðingu Símans.
** Ég set gæsalappir umhverfis orðið "þjónustuver". Ástæðan fyrir því er að rithátturinn "þjónustu"-ver sem lýsir fyrirbrigðinu betur er óþjáll og hætta er á að lesendur skilji mig ekki ef ég skrifa "þjónustuskortsver" eða "dapurlegt-samansafn-auðnuleysingja-sem-þvo-sér-illa-eða-ekki-um-hendurnar-eftir-klósettferðir-ver"***.
*** Smá fyrirvari: Ég þekki nokkra starfsmenn Símans og flestir, ef ekki allir, þvo sér um hendurnar eftir að hafa kúkað. Því má líta á sem svo að ég sé hér í texta mínum að beita skreytni, jafnvel ýkjum, til að hrífa lesendur með mér í eigingjarnri illgirni. Starfsfól(k) "þjónustuvers" Símans er því beðið afsökunar, enda ástandið ekki þeim að kenna, þeim er náttúrulega bara vorkunn að þurfa að vinna inni í þeim niðurgangsþakta endaþarmi sem fyrirtækið er, með tilheyrandi þrengslum, óþef og sjúkdómahættu.
**** Eiðar í þessari grein eru allir lagðir við nafn Jóns B. Þorsteinssonar, fiskverkamanns á Suðureyri. Blessuð sé minning hans.
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin