Björgunaraðgerð á Hagamel

3. ágúst 2006

Ég sat í rólegheitum yfir bók í kvöld með illfygli heimilisins, Herra James, á öxlinni, nartandi í eyrað á mér. Eitthvað hefur eyrað bragðast illa (trúi því þó varla, hef aldrei fengið kvartanir), því skyndilega rak hann upp skræk, hóf sig til flugs og flúði út um glugga sem hann hefur aldrei svo mikið sem litið á áður. Ég blikkaði augunum, kyngdi og sagði "Ja-há" við sjálfan mig. Svo rölti ég út á svalir og byrjaði að blístra af innlifun. Eftir nokkurn tíma fékk ég lágvært svar, James sat sallarólegur á næstu svölum, virti fyrir sér heiminn og snyrti sig. Nákvæmlega það sama og ég geri þegar ég týnist.

Ég reyndi að lokka hann til mín með loforðum um gull og græna dverga, en hann sat sem fastast. Ég bölvaði því í hljóði að vera ekki demantaþjófur og eiga því ekki líflínu með akkeri til að skjóta yfir á svalirnar.

Nú var ég farinn að fylgjast áhyggjufullur með máfinum sem hnitaði hringi yfir blokkinni. Allir vita að páfagaukar eru eftirlætisfæða máfa, innfluttur sælkeramatur - nýlenduvara. Ég tók undir mig stökk og var á leiðinni út um dyrnar þegar síminn hringdi, það var Anna sem hafði líklega rumskað við blísturtónleikanna á svölunum. "Slapp James"? Það var áhyggjutónn í röddinni. Ég svaraði einhverju, skellti á og hljóp svo út um dyrnar, valt niður stigann, yfir í næsta stigagang og hóf að refsa af alefli dyrunum að íbúðinni við fuglasvalirnar meðan ég hrópaði "Í nafni almættisins opnið dyrnar, páfagaukur í neyð, fuglalíf Íslands í húfi, ríkisstarfsmaður að störfum!". Af einhverri ástæðu fékk ég ekki svar svo ég stökk niður í geymslu og sótti stiga.

Ég bar stigann út í garð með miklu brambolti, en þar var James farinn að rannsaka aðstæður og flytja sig á milli svala. Á meðan hljóp ég um fyrir neðan með stigann. Nágrannarnir voru á þessu stigi farnir að hópast út og fylgdust fullir áhuga með aðgerðum. Þeir héldu sig þó í öruggri fjarlægð - maður vill ekki koma of nálægt manni á náttfötum sem hleypur blístrandi í hringi, sveiflandi í kringum sig stiga.

Loks settist James að á svölum á annarri hæð. Ég stillti stiganum upp og klifraði upp á svalirnar. Það var feginn fugl sem kom fljúgandi og settist á fingurinn á mér. Svo vinkaði ég glaðlega til parsins sem var á fullu á sófanum inni í íbúðinni og klifraði niður. Síðasta setning er lygi.

Segið svo að ég lifi ekki spennandi lífi. Þótt páfagaukurinn minn virðist að vísu lifa meira spennandi lífi en ég.


Tjáskipti

baun

hmm...hefur það hent áður að einhver hafi nartað í eyrað á þér og síðan flogið út um gluggann? gott að þið James náðuð saman á ný, ég var snortin af endurfundakaflanum í sögunni:o)

Hugi

Nei baun, eins og ég hef einhverntíman nefnt eru það nú yfirleitt buxurnar mínar sem fljúga út um gluggann eftir eyrnanart :o). En já, þetta voru fallegir endurfundir, við féllumst í faðma/vængi og grétum. Svo nutum við heitra ásta í alla nótt og sórum að skiljast aldrei aftur að.

Lindablinda

Refsaðirðu hurðinni? Nú er ég alveg hætt að skilja náttúruna þarna á melunum.

Elías

Linda: þú meinar "ónáttúruna," ekki satt?

Hugi

Ég hef alltaf sagt að ég vildi frekar eiga góða hurð en konu. Þær eldast betur. Auk þess sem ég þreytist aldrei á að segja "Af hverju ertu alltaf svona lokuð, elskan?".

Gstr

Já, og ég varð enn snortnari af endurfundunum sem þú lýsir í svarinu til baunar, þó að ég sé dálítið að velta fyrir mér tæknilegu hliðinni. Góðar hurðir eru mun betri en konur, hinar síðarnefndu vilja jú alltaf vera að opna sig. (Á röngum stað).

Fríða

Var það lygi að þú klifraðir aftur niður! Fórstu þá kannski inn að trufla?

Hugi

Já, Gestur, þetta var falleg stund. Við elskuðumst á bjarndýrsfeldi framan við arineld. En þetta atvik varð til þess að við áttuðum okkur á hversu illa statt samband okkar er. Við tölum aldrei saman, ég meina, hann kann náttúrulega bara tvö orð, en mér finnst það samt pirrandi þegar ég reyni að ræða um hvert sambandið stefnir, og þá er það alltaf bara "Halló, kexkaka, halló halló, kexkaka". Ég er búinn að panta fyrir okkur lúxussiglingu um Karíbahafið svo við getum reynt að endurnýja kynnin. Ef það virkar ekki, þá veit ég ekki hvað ég á að gera. Ég gæti jafnvel þurft að leita út fyrir heimilið og fá mér viðhald. Til dæmis hamstur. Fríða, auðvitað :-).

Gstr

O, Hugi! Ég skil þig svo. Samt hef ég hvorki verið með James, né framtíðarviðhaldinu þínu. Bíddu aðeins, ég er með svo mikinn ekka.

Mjása

Mæli ekki með hamstri sem viðhald. Algjörir búlemíusjúklingar. Alltaf á hlaupahjólinu og æla eftir hverja máltíð. Held að stór björn gæti hentað þér vel. Kannski panda.

Hugi

Fyrirgefðu Gestur, ég ætlaði ekki að íþyngja þér með þessum pælingum. Já Mjása, ég hef heyrt af þessu með hamstrana. Hvernig ætli sé með pandabirni, nú þarf náttúrulega að flytja þá inn - ætli það sé erfitt fyrir þá að fá atvinnuleyfi og ríkisborgararétt? Og er pandabjörn á Goldfinger, svo maður geti skoðað málin fyrst?

Gstr

:-D

Carlo

Einhver sagði mér að það væri allt fullt af bjórum og kisum á Goldfinger. Sá var reyndar enskumælandi en sagði ekkert um birni, panda eða aðra. Passaðu þig annars á þessum Pöndum þetta eru grimmar skepnur og viðsjárverðar.

baun

hjartans þökk fyrir mig, góða ferð:o) p.s. bið að heilsa James

Hugi

Takk kærlega fyrir mig sömuleiðis, baun :). Reyni að hafa ferðina góða.

Simmi

Hey - takk kærlega fyrir mig. Algjör snilld allt saman:-) Góða ferð Westur og skilaðu kveðjur til Steve frá mér!

Sveinbjörn

Hvernig er svo á WWDC?

Barbie

Ég á tösku sem gengur undir nafninu James. Loðin og rauð. Get lánað þér hana við tækifæri. Mjög dömuleg.

Hugi

Sveinbjörn, WWDC er auðvitað snilldin ein. Læt betur í mér heyra á næstunni. Barbie, mig vantar einmit góða handtösku undir strákadótið mitt. Kannski ég fái að stelast í James hjá þér við tækifæri?

Stefán Arason

HAHAHAHAHA! Næst þegar ég kem í heimsókn þá mun ég með glöðu geði elda handa þér uppáhalds páfagauka pottréttinn minn, með paprikum og púrrulauk. En mikið djöfull er erfitt að þýða netlið þitt yfir á dönsku!

Sveinbjörn

Hvað er þetta, gamli turdur! Færirðu ekki betri fregnir af WWDC heldur en eina skitna setningu? .... You disappoint me, Hugi.

Barbie

Enítæm. Afskaplega lekkar James sem ég á.

Hugi

Stebbi, ég skal gæta þess að vera danskari hér eftir. Sérstakar ábendingar? Sveinbjörn, samviskusamur sem ég er, þá er ég auðvitað þrælbundinn af NDA frá Apple. Sem þýðir að öllum upplýsingum sem ég hef fengið á þessari ráðstefnu má aðeins leka yfir bjórglasi :-). Barbie, besta mál, við látum skiptin fara fram á Ingólfstorgi í fyrramálið. Svo auðveldara sé fyrir þig að þekkja mig, þá verð ég nakinn, nema með strútsfjöður í rassinum og ananas í sitthvorri höndinni. Vonandi náum við saman.

Stefan Arason

Du må meget gerne bruge flere danske ord. Det gør det hele meget nemmere ;-)

Barbie

Sá þig ekki. En sá mann með geitafjöður í hattinum og tvö krækiber í hendi. Þorði ekki að nálgast hann, hann var of fríkí svona ananaslaus.

Hugi

Hárrétt ákvörðun Barbie. Ég treysti heldur ekki ananasleysingjum, þar er á ferðinni fólk sem hefur enga sjálfsvirðingu og svífst einskis til að komast yfir töskur. Ég var til dæmis handtekinn af tveimur ananasleysingjum í lögreglubúningum þegar ég kom niður á Ingólfstorg, þess vegna var ég ekki á staðnum :-(.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin