Þvottaduft

23. apríl 2008

Ég er einfaldur maður, lifi einföldu lífi og hef einfaldar þarfir. Það eina sem ég þarf er gott kaffi, góður matur og djass. Og. Ég vil *ekki* að það sé þvottaduftslykt af þvottaduftinu mínu.

Ég tók eftir því um helgina að Mt. Þvottur var orðið snævi þakið á tindinum. Það er ótvíræður vorboði og merki um að það sé kominn tími á að þvo ("Þvottadagur" er skv. trú ættbálksins míns síðasti þriðjudagur fyrir sumardaginn fyrsta). Svo ég fór í eituraefnagallann, réðist á fjallið og sorteraði það í buxnameli, nærbuxnahóla, handklæðadali og tígrisþvengjatinda - og svo eina dularfulla litla hrúgu með hlutum sem voru fubar, of krumpaðir til að hægt væri að bera kennsl á þá.

En þegar ég ætlaði að ráðast í sjálfa framkvæmdina varð ég var við hráefnisskort í þvottaefnisdeildinni. Svo ég fór í síðustu hreinu fötin (blár kjóll með rauðum blómum sem ég á af einhverri ástæðu inn í skáp - mjög vorlegur) og trítlaði út í búð.

Fyrir mér er þvottaduftsdeildin í kjörbúðinni eins og villtur frumskógur fullur af þvottaduftsdýrum. Skrautlegir litríkir feldir eru aðferð þvottaduftsdýrsins við að segja "Varúð! Eitur! Ekki snerta!" svo ég vel alltaf hvíta kassa, helst með nafni eins og "neutral". Það er róandi og gott nafn á þvottaduft. Ég forðast alltaf kassa með upphrópunarmerkjum og orðum eins og "Ultra" eða "Max" eða "Super", ég er að kaupa þvottaduft, ekki geimflaugar eða kjarnaodda.

Þetta gerði ég í gær. Hvítur kassi, engin upphrópunarmerki, allir sáttir. Svo þegar ég kom heim gat ég stokkið óhræddur á þvottafjallið eins og kynsveltur þvottabjörn um fengitímann og hafist handa við að refsa því af innlifun.

En strax og ég tók úr fyrstu vélinni fann ég að eitthvað var rangt. Það var einhver Gunnar í Guðmundinum. Það var... lykt... af þvottinum mínum. Ég gretti mig og fór og lyktaði varlega upp úr kassanum. Það var... lykt... af þvottaduftinu mínu! Þvottaduftinu MÍNU, hvernig dirfast þeir! Ég leit á pakkann, og jújú - ég hafði verið gabbaður af eitruðu þvottaduftsdýri í felubúningi sem hét auðvitað "ultra max super white fun explosion! happy! happy!" (minnir mig).

Ég gretti mig aftur. En hélt áfram að þvo, þetta gat ekki verið svo slæmt. Ég var svo saklaus ungur maður í þá tíð.

Og núna þarf ég að taka afleiðingum gjörða minna. Hér sit ég við morgunverðarborðið, ilmandi eins og nýþvegin klósettskál. Og þar sem öll fötin mín ilma af þessari gólfbónslykt, sem er verri en mysingur og nasismi samanlagt, þarf ég að sitja í henni allan daginn næstu dagana. Þetta endar með þunglyndi og drykkju. Jafnvel heimsendi.

Ég ætla að leita uppi manninn sem fann upp þvottaduftsilm. Og ég ætla að refsa honum í nafni mannkyns og alls þess sem er gott í heiminum.


Tjáskipti

hildigunnur

hehe, bara ekki nota mýkingarefni með tilheyrandi fýlu, þá fyrst líður nú yfir þig við morgunverðarborðið...

Elías

Kveiktu bara aftur á þvottavélinni þegar hún er búin að þvo. Þá ætti þetta að hverfa.

Hugi

Úff, mýkingarefni, minnstu ekki á þann óbjóð ógrátandi! Martraðir og barnsgrátur á fljótandi formi. Frekar nota ég nú bara keytu.

Kolla

Skiptum bara á fötum, þú færð möl-lyktandi kjólana mína sem hafa hangið inní skáp í áraraðir og ekki komið nálægt mýkingar eða þvottaefnum, og ég skal hirða larfana þína með mysings og nasistalyktinni. Mér finnst mysingur nefninlega AL-góður og nasismann ætla ég að taka í nefið ;o)...en annars er hugmyndin góð um að míga á þvottinn áður en maður setur hann inní skáp!!!!

Stefán Arason

Elsku uppáhalds grjónapungurinn minn Þú gætir náttúrulega bara migið yfir þvottinn þinn, og látið hann liggja á gólfinu í nokkra daga. Þvottalyktin hverfur alveg örugglega! Fallerí fallera.

Hugi

Takk fyrir góðar ráðleggingar Elías. Þvæ þetta upp úr blásýru næst Kolla, hugsa að ég þiggi kjólana, mig bráðvantar góðan samkvæmiskjól til að nota á bingókvöldum í Glæsibæ! Eitthvað ekki of áberandi, en samt svolítið sexí. En verð að vera ósammála með mjólkurafurðina "mysing" sem lítur út og bragðast eins og bragðbætt koppafeiti. Awww... Stefán, hjartans litli krúsímúsí hunangssnúðurinn minn. Þetta finnst mér góð hugmynd. Íhugaði líka að fara út á næsta tún og velta mér upp úr mykju að hætti hunda, gott fyrir ilminn og frábær hreyfing! Alltaf get ég treyst á ykkur með góðar tillögur, oseisei jájá.

lindablinda

Miðað við fyrra tal um refsingar hef ég einhverjar undarlegar áhyggjur af uppfinningarmanninum.

Hugi

Ó, að gefnu tilefni, hann á ekki von á góðu. Ég ætla að taka hann og þvo hann. Með miklu mýkingarefni! Og svo fær hann keytumeðferð!

Sveinbjörn

Felur þetta ekki bara náttúrulega estrógen-hlaðna óþefinn af þér? ;)

Hugi

Sveinbjörn. Það eru bein línuleg tengsl milli fjölda klukkustunda sem þú eyðir á landinu og estrógenmagns í æðakerfinu hjá mér. Svo núna er bara ekkert eftir. Held að eggjastokkarnir sem voru byrjaðir að myndast séu að hverfa aftur og allt...

baun

ó, hvað ég skil þig. þoli ekki "góða lykt" af þvottaefni (bjakk), ilmvatni (viðbjóður), tala nú ekki um varalit (hrollur). og klósetthreinsir er ábyggilega búinn til úr eitruðum efnaúrgangi. það væri reyndar ágætt nafn á þetta fyrirbæri, TOXIC WASTE klósetthreinsirinn...

Sveinbjörn

Ó, Hugi, þetta er það rómantískasta sem þú hefur nokkurn tímann sagt við mig! Ég er hér um bil að tárast hérna, borðandi ís og haldinn mikilli löngun til þess að tala um tilfinningar mínar ... er líka alveg hættur að geta keyrt bifreiðir almennilega .... wait a minute, where *is* all that estrogen of yours going?

Þórhildur

Hérna hjá mér er einmitt svona ilmur af klósettpappírnum. Ég er þó hvorki nógu liðug né með nógu gott þefskyn til að vita hvort ilmurinn smitast á gatið. En mysingur, maður minn, ég sakna mysings.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin