Obsessive compulsive what now?

5. ágúst 2005

Ég er þekktur fyrir ýmislegt, en þar á meðal eru áreiðanlega ekki yfirburða samskiptahæfileikar mínir við önnur karldýr af tegundinni Homo Sapiens. Ég fékk að brenna mig á þessum hæfileikaskorti þegar ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir allnokkrum árum síðan.

Þetta var skömmu eftir að við stofnuðum Vefsýn. Ég fór til Apple í Cupertino í Bandaríkjunum á vikulangt námskeið í WebObjects-forritun, svo að Vefsýn hefði nú einhvern hugbúnað til að selja. WebObjects var á þessum tíma ný tækni í augum Apple-manna og því voru á námskeiðinu stödd öll helstu nörd makkaheimsins. Aðal-yfirnördið var þó sjálfur Scott Anguish, maðurinn á bak við Stepwise (þekktasta NeXT- og WebObjects-vefinn á þeim tíma) og auðvitað sat hann við hliðina á mér. Fyrir þá sem ekki eru skólaðir í forritun, þá var þetta svipað því að fara á námskeið í popptónlist og sitja við hliðina á Eric Clapton.

Okkur Scott varð vel til vina, hann var furðulegur, ég var furðulegur og það var vel. Vikan leið, við hjálpuðumst að í forrituninni, ræddum nördamál í pásunum og fórum ásamt hinum nördunum á nördabarinn á kvöldin, allt virtist eðlilegt. En svo fór að kræla á auknum furðuleika. Einn daginn fór námshópurinn t.d. saman á veitingastað eftir kennslu. Ég rölti út með Scott og spurði hvort ég mætti sitja í bílnum hjá honum. Hann varð hinn vandræðalegasti og hélt langorða ræðu (kannski var hún ekki svo langorð en hann stamaði mikið) um að hann mætti ekki taka farþega sökum veikinda. Ég spurði ekki frekar út í veikindin, gerði ráð fyrir að hann væri flogaveikur og rölti á staðinn. Enn virtist allt rétt og gott.

Síðasti dagur námskeiðsins rann upp, bjartur og fagur og þegar hann kláraðist var ég yfir mig ánægður með afrakstur vikunnar. Ég lærði heilmikið, dúxaði á námskeiðinu og var allkátur. Ég tók við prófskírteininu, klæddi mig í jakkann, gekk að Scott og gerði mig líklegan til að taka í höndina á honum í kveðjuskyni. Þegar Scott sá tilburðina, hrökk hann hinsvegar við og varð afar flóttalegur. Ég teygði fram höndina og sagði eitthvað í stíl við "Thank you for the companionship" en hann umlaði bara lágvært "yeah, bye", faldi hendurnar á bakvið sig og tók tvö skref afturábak. Úr augunum skein ótti. Ég var á þessum tíma ekki búinn að þróa til fullkomnunar hæfileikann til að lesa líkamstjáningu fólks og rak upp hrossahlátur, teygði höndina nær honum og sagði "Come on, put'er there". Einmitt á þeim tímapunkti trylltist Scott, snerist á hæli og hljóp frá mér út í fjærsta hornið á herberginu. Þar stóð hann, hnipraði saman líkamann, skalf eins og hrísla og starði á mig útundan sér með galopin augu eins og ég væri í strápilsi með lærlegg í gegnum miðsnesið, hnífapör í höndunum og ætlaði að sjóða úr honum súpu.

Sumir hefðu áttað sig á því á þessum punkti að vinátta okkar var ekki að þróast í rétta átt. En hvað gerði ég? Ég hló bara hærra, teygði brosið nær eyrunum og var handviss um að hann væri að grínast. Ég gerði mig líklegan til að fara til hans út í hornið og veit hreinlega ekki hvað hefði gerst næst ef Malcolm, kennarinn, hefði ekki komið hlaupandi og skýrt fyrir mér að Scott væri illa haldinn af þráhyggjugeðsjúkdómi sem heitir á góðri ensku "Obsessive Compulsive Disorder". Hann þyldi helst ekki að vera mjög nálægt fólki, þyldi ALLS EKKI að láta snerta sig og að það hefði verið stórmál fyrir hann að mæta á námskeiðið yfir höfuð. Ég höndlaði þessar fréttir auðvitað eins og sá mannlegra-samskipta-snillingur sem ég er, þ.e. ég veifaði í allar áttir, hrópaði "Thanks everyone. Goodbye!" og strunsaði út. Næstu tvo daga hugsaði ég ekki um annað en að þetta hefði e.t.v. verið í síðasta skipti sem Scott Anguish hætti sér út fyrir hússins dyr - þökk sé Huga Þórðarsyni frá Íslandi.

Eftirmáli: Við Scott höfum eftir þetta hist á ráðstefnum, verið í tölvupóstsambandi og erum ágætir vinir. Aldrei höfum við þó minnst á þetta furðulega atvik, enda virðist bara einhvernveginn aldrei vera réttur tími til að segja glaðlega "Heyrðu, manstu þegar ég drap þig næstum því úr hræðslu með því að reyna að snerta þig?".


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin