Laganna verðir

22. janúar 2009

Ég er reiður núna, fjandinn sjálfur.

Ég var rétt að sofna áðan þegar ég frétti að lögreglan væri byrjuð að beita táragasi niðri á Austurvelli. Eins og allt skynsamt fólk gerir við slíkar aðstæður smeygði ég snarlega yfir mig peysu og þeysti rakleiðis niður á Austurvöll til að fylgjast með Íslandssögunni í beinni.

Það var undarleg stemning á Austurvelli þegar ég kom þangað um eittleytið. Hér um bil allt fólkið var farið upp að Stjórnarráði (fyrir utan einhvern hóp við alþingisskálann sem stóð á móti hópi lögreglumanna í óeirðagalla) svo ég rölti um hálfmannlausan Austurvöllinn og drakk í mig stemninguna. Ég stillti myndavélinni minni upp á lítinn staur til að taka mynd af Alþingishúsinu sem var illa leikið, útatað skyri og málningu og gluggar gapandi brotnir.

Þar sem ég stumraði yfir myndavélinni heyrði ég skyndilega háværan hvell einhversstaðar ekki svo fjarri mér og svo skömmu síðar þungan dynk alveg upp við mig. Ég hélt að löggan væri aftur byrjuð að skjóta táragasi og tók til fótanna, enda enn með tárvot augu og ógeðssviða í hálsinum eftir leifarnar af fyrri árásinni. En þegar ég leit til baka heyrði ég hlátrasköll.

Ég leit á "táragassprengjuna" sem hafði lent ca. hálfan metra frá mér og staurnum og gekk að henni. Þetta var lóð á endanum á líflínu.

Þarna stóð ég s.s. aleinn með myndavél - það voru a.m.k. 15 metrar í næstu manneskju - og hópur lögreglumanna uppi á Hótel Borg, sem leiddist greinilega að mótmælin skylu vera búin, ákvað að skemmta sér við að skjóta á mig með eldflaugardrifinni líflínu.

Þetta er nú öll atvinnumennskan hjá fólkinu sem á að vera að framfylgja lögunum í þessu landi.


Tjáskipti

Ósk

Þessir kjánar eiga að vita bertur en að láta svona, gefum öpum völd! Hvar er sædýra safnið núna?

Atli

Hah? Ótrúlegt!

hildigunnur

vá!

Hugi

Já, Ósk þessir kjánar eiga að vita betur. Ég hef vorkennt þeim að þurfa að standa í þessu - þetta er jú fólk í sömu sporum og við hin - en þarna fékk ég á tilfinninguna að þetta væri bara orðið eins og í leikfiminni í gamla daga; skipt í lið eftir því hvort þú ert í vesti eða ekki. Svolítið geggjað...

Hugi

Ég fór annars og gúglaði "vopnið" þegar ég kom heim... Vopn dagsins hjá lögreglunni er Pains Wessex Speedline 250-línan :-). http://www.landfallnavigation.com/spwsl.html

Atli

Magnað! Bara eldflaugin kostar þarna $200 .. það er ekkert lítið á þessum síðustu og verstu!

Hugi

Já, sæll... Ég bjallaði í Lögregluna í Reykjavík rétt í þessu til að leita eftir skýringum - ég meina, þegar þeir skjóta á mann 30.000.- króna rakettu með áföstum kaðli, þá hlýtur þeim að ganga eitthvað meira til en bara lélegur húmor. Right? En - það vildi enginn tala við mig hjá LR út af þessu. Allir voðalega uppteknir eitthvað í dag.

anna

Þessi mótmæli gegn ofbeldi sem boðuð eru núna á næstu dögum missa algjörlega marks ef þau ná ekki yfir ofbeldi lögreglu gegn borgurum. Að nota táragast í gær gegn fólki sem var að fagna er svipað og að nota táragast í bænum að kvöldi 17. júní. Auðvitað verður fólk reitt og ástandið versnar. Það er hlutverk óeirðarlögreglu að koma í veg fyrir óeirðir, ekki búa óeirðir til.

SSkoppur

WTF !!! Hérna er líka fróðlegt blogg í máli og myndum af vafasömum lögregluþjóni. http://pallih.tumblr.com/

Hugi

Bingó, Anna. Magnaðar myndir Koppur! Það er afskaplega leiðinlegt að sjá hvernig lögreglan er ekki að höndla þessar aðstæður.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin