Gleðilegan mánudag

6. febrúar 2006

Þetta var mögnuð helgi í leik og starfi, ég held að ég hafi náð að sofa í samtals fjóra tíma. En allt gaman tekur enda og þegar ég vaknaði í morgun var ég svo þreyttur að þegar ég reyndi að standa upp leið mér frekar eins og ég væri undir rúminu en ofan á því. Ég skreið á fjórum fótum inn á baðherbergi og stakk hausnum ofan í klósettskálina til að reyna að hressa mig við, hafði hreinlega ekki afl til að lyfta hausnum upp í sturtuna.

Þegar ég kom niður á bílastæði, þá var bíllinn minn frosinn inn í eitt stórt klakastykki þannig að það hefði helst þurft að skafa af gluggunum með slípirokki. Ég andvarpaði og reyndi að opna hurðina. Hún var frosin föst. Annað andvarp. Varirnar á mér frusu fastar við lásinn þegar ég reyndi að blása heitu lofti inn í hann og ég reif þær hér um bil af í heilu lagi þegar ég stóð upp. Ég juðaðist á hurðinni í rúmar fimm mínútur þar til hún loksins opnaðist, sótti íssköfuna inn í bílinn og byrjaði að hamast á klakabrynjunni á framrúðunni. Mér tókst á aðeins kortéri að gera ca. 10x15 cm stórt gat í ísinn sem mér fannst feykinóg enda skafan þá hvort sem var orðin eydd upp að handfangi. Ég settist inn í bílinn og lokaði hurðinni á eftir mér. Hún neitaði að lokast, allt frosið fast.

Ég reyndi að ræsa bílinn, en ekkert gerðist. Tíu mínútur fóru í örvæntingarfullar og árangurslausar tilraunir til ræsingar, en það heyrðust bara vesældarleg hóstakjöltur frá startaranum. Á þessum tímapunkti rann eitt einmana tár niður á nefbroddinn á mér. Og fraus þar.

Ég ákvað að fara aftur inn til að afþíða fingurna á mér og mætti Önnu á ganginum. Ég kjökraði eitthvað vonleysislegt, man ekki einu sinni hvað, og hún stakk strax upp á að ég pantaði Landroverinn. Hún les mig eins og doddabók.

Eftir fimm mínútna óstöðvandi grátkast inni á klósetti fór ég aftur út í bíl og reyndi að ræsa, og í elleftugustu tilraun hökti vélin loksins í gang. En þjófavarnarkerfið, sem er bilað og ekki hægt að slökkva á, fór í gang og hurðin neitaði enn að lokast. Þannig að í morgun ók ég á '96 módelinu af ísklumpi í vinnuna, haldandi hurðinni lokaðri með vinstri hönd og með hazard-ljósin í gangi. Ég er svo glæsilegt fordæmi í umferðinni.

Þegar ég loksins kom í vinnuna, tuttugu mínútum of seint, komst ég að því að ég var enn á inniskónum og í mislitum sokkum. Lífið er svo fallegur staður stundum.


Tjáskipti

Orri

Ég átti mjög svipaða byrjun á vinnuvikunni. Fyrir utan Önnu og þjófavarnarkerfið, inniskóa og sokkakrísu gæti þetta verið lýsing á mínum mánudagsmorgni. Nema líka fyrir utan þetta með að hurðin lokaðist ekki og hazard ljósinn. Annað er sambærilegt. Nokkurn veginn.

Bryndís

Fyrst þú fékkst ekki að kaupa landróverinn ættirðu kannski að huga að því að taka strætó.

Hugi

Ekki galið. En reynsla mín af strætó er samt ekki mikið betri, það er alveg sama hvaða leið ég tek og hvert ég er að fara, ég enda alltaf í Mjódd.

Siggi Óla

Skemmtileg lýsing á skemmtilegum morgni. Stundum er þetta rosalega erfitt allt saman. Ég var t.d. ennþá hálf þunnur eftir helgina þegar ég vaknaði í morgun- Á ÞRIÐJUDEGI! Kræst.

Hugi

Siggi, þú átt alla mína samúð! En heyrðu, þú gleymdir sundskýlu og göngustöfum hjá mér, ég var að spá í að fara í hvorttveggja og fara í göngu meðfram Ægissíðunni. The gay hiker strikes again!

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin