Miskunnsami Mokverjinn

22. nóvember 2006

Fékk þrjá gesti í mat á föstudagskvöldið, tvo af tegundinni Homo Sapiens Sapiens og einn af tegundinni Canis Islandicus. Sátum og spjölluðum og hlógum (eða geltum, hver eftir sinni tegund) frá hálf-átta um kvöldið til hálf-þrjú um nóttina og geri aðrir betur. Mundi segja frá umræðuefninu en þá þyrfti ég að drepa ykkur. Eða a.m.k. meiða ykkur smá. Eða kannski bara segja eitthvað rosalega særandi, eins og "vá, hefur hárið á þér alltaf verið svona feitt" eða "ferlega samsvara eyrun á þér sér illa við hökuna á þér".

Ég er svo illgjarn, að hið hálfa væri bara ansi illgjarnt. Ójá.

En jæja, svo var ég með pakkfullt hús af hreint frábærum gestum á laugardagskvöldið. Eldaði að vísu tóman óþverra ofan í þessi grey, ég var svo steiktur í hausnum eftir svefnleysi undanfarinnar vinnu- og prófaviku að ég mundi varla hvað ég hét - hvað þá hvernig maður eldar mat. En þau sátu samt og átu þæg brunarústirnar af diskunum sínum og brostu skilningsríku blíðubrosi meðan ég starði tómlegu augnaráði á plastáhöldin mín bráðna föst við eldavélina og rifjaði með erfiðismunum upp hvar ég hafði sett... Eiginlega allt. Held ég hafi bara aldrei átt jafn sorglega þreytulega matargerð eins og þetta kvöld.

Þarf að bjóða þeim aftur einhverntíman - með eindæmum skemmtilegt og gott fólk sem þreyta gestgjafans bitnaði á - og gaman að spila við það Catan.

En já, helgin snerist semsagt um mat.
Og jú - mokstur!

Það greip mig ofsagleði þegar byrjaði að snjóa af krafti á laugardagskvöldið. Og það skríkti í mér eins og hafnfirskri skólastúlku þegar ég vaknaði á sunnudeginum og sá að allt var komið á bólakaf í snjó - því það á að vera snjór á veturna. Systir mín kíkti í morgunkaffi og þegar hún var farin gallaði ég mig upp, greip snjóskóflu heimilisins traustataki og fór svo út og mokaði. Og ég mokaði af innlifun. Ég mokaði eins og vindurinn. Ég mokaði fyrir Ísland!

Ég mokaði alla stéttina fyrir utan blokkina, frá Hagamel að Hofsvallagötu. Ég mokaði bílinn minn út úr risaskafli - og bílana við hliðina á honum líka. Svo námu næm karlmannseyru mín neyðaróp ungrar stúlku frá næsta bílastæði, svo ég rölti yfir götuna, mokaði bílinn hennar út og ýtti henni svo hálfa leið niður í miðbæ. Önnur nærstödd stúlka sá aðfarirnar og pantaði viðtal, og ég mokaði hana út líka. Frá henni fékk ég koss á kinnina að launum sem kom mér vægast sagt ánægjulega á óvart. Hélt að feminisminn væri löngu búinn að útrýma þess háttar kvenlegri kurteisi.

Og nú var ég kominn á bragðið. Ég fór á röltið um Hagamelinn með skófluna á öxlinni og mokaði út allt kvenkyns sem ég sá, samtals voru það fimm ungar konur sem fengu að kenna á mér þennan dag. Auðvitað sá ég einhverja karlmenn sem höfðu fest sig líka en þeir fengu að sjá um sig sjálfir, því það er langsótt að titla sig karlmann ef maður getur ekki keyrt bíl í smá snjóföl án þess að festa sig. Og ef karlmenn festa sig á annað borð? Þá geta þeir nú bara mokað sig út sjálfir.

Þessi mokstursgeðveiki tók tvo og hálfan tíma og þegar ég kom aftur upp í íbúð var ég svo gegnblautur af svita að ég þurfti að klippa utan af mér fötin. En maður minn, það var svo þess virði.


Tjáskipti

Carlo

Koss fyrir mokstur? Þú ert svo mikill herramaður, Hugi. Miðað við hvað mokstur er erfiður hefði ég nú í það minnsta laumað smá tungu með. Sko, til dömunnar sem hefði kysst mig að launum. Ekki til þín. No offence, Hugi, þú ert mjög karlmannlega aðlaðandi.

Þór

Snjómokstur ? *BRRRRR* Mikið er ég ánægður að eiga ekki bíl :o) Í þeim skrifuðu orðum skelli ég mér í göngugallann og labba upp í skóla til að mæta í próf..

Lína

Lína ýtti karlmanni á kagga á laugardaginn.. fékk engan koss að launum. Lína ætlar að flytja í Vesturbæinn.. Niður með femínisma! Lína

Barbie

Tek undir með Kalla. Sleikur á þetta - algjört lágmark. Stefni á að flytja á Hagamelinn.

Carlo

Hugi, kaupa sér hágæðavarasmyrsl strax! :D

Hugi

Carlo, auðvitað er ég herramaður. Veit samt ekki hvort tungu var laumað með, ég var svo loppin í andlitinu. Og púlsandi æðaslátturinn í kinnunum á mér skemmdi fyrir. Lína, hvers konar ruddi var þetta eiginlega sem þú ýttir?? ÉG hefði kysst þig. Á staðnum! Barbie, hlakka til að sjá þig. Nú er bara að bíða eftir næsta hreti.

Agnes

Takk fyrir frábært kvöld....skemmti mér konungleg...sérstaklega að horfa á þig elda hehehehe:) Þurfum alveg að endurtaka þetta!!!!

baun

mikill herramaður ertu Hugi minn...átt ábyggilega skilið að fá alla heimsins kossa (og jafnvel tungu með stundum)

Mjása

Hafnfirsk skólastúlka? Anyway, ég er að skrifa ritgerð og vorkenni mér mjög mikið. Svo sá ég að Þór er að fara í próf þannig að mér leið aðeins betur. Eru fleiri sem eru að taka út lærdóm?

elma

Takk fyrir frábært kvöld Hugi, það er stórlega ýkt hjá þér hversu matargerðin var slæm,, allt bragðaðist mjög vel að vanda,, fyrir utan ótvírætt skemmtanagildi þess að horfa á listir þínar í eldhúsinu ;) heheheh Endurtakist takk.

Elma

Gleymdi: HAFNFIRSKAR SKÓLASTÚLKUR?????

Hugi

Já Elma mín. Ég var auðvitað að hugsa um þig :-). Takk annars fyrir komuna báðar tvær, fannst gaman að fá ykkur í heimsókn - þótt ég væri sjúskaðri en hafnfirskur sjóari. Og Agnes þó, suss! Bannað að hlæja að svona vansvefta úttauguðum rauðhærðum eins og mér! :) Baun, ef þú átt kossa á lager máttu endilega skella þeim í lokað umslag merkt "krakkaklúbburinn" og senda á Hagamelinn. Mjása, ég er líka að drukkna í lærdómi. Mjög skemmtileg lífsreynsla svona á gamals aldri.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin