Varúð

2. september 2005

Ég verð að játa að í seinni tíð er ég orðinn fremur varkár með húrrarhrópin þegar kemur að hegðun framkvæmdavaldsins hér á landi. Það virðist vera orðin íþrótt hjá yfirvöldum að koma fram við þá sem eru með "óhefðbundnar skoðanir" eins og hvern annan óþjóðalýð og það veldur mér áhyggjum að þetta skuli ekki valda Íslendingum öllum almennum áhyggjum.

Skemmst er að minnast mótmælendanna sem komu að Kárahnjúkum fyrr á árinu. Sjálfur er ég fylgjandi virkjana- og álversframkvæmdunum, en það breytir því ekki að ég skil vel þær fórnir sem við færum fyrir þessar framkvæmdir og þar af leiðandi þann málstað sem mótmælendur berjast fyrir. Þess vegna sárnar mér að mótmælendur sem hafa ekkert til saka unnið annað en að standa fast á sínum ágæta málstað, skuli fá "reisupassann" frá okkur og vera skipað nauðugum af landi brott í rútum. Og þetta horfðum við upp á eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var fyrir það mesta friðsamt fólk, vissulega voru einstaklingar innan hópsins sem gengu of langt, eins og alltaf er, en það réttlætir engan veginn glæpamannastimpilinn sem þjóðin setti á fólkið, með öllum þeim málatilbúnaði sem þeir sem fylgdust með þekkja.

Annað mál er þegar Jiang Zemin, forseti Kína, kom hingað í heimsókn fyrir þremur árum. Þessi maður er fulltrúi einhverrar viðbjóðslegustu einræðisstjórnar tuttugustu aldarinnar, en samt kusum við að bjóða hann velkominn eins og hvern annan þjóðhöfðingja á meðan þeir sem mótmæla friðsamlega framferði kínverskra kommúnista voru lokaðir inni í íþróttahúsi einhversstaðar í Reykjanesbæ, í nafni viðskiptahagsmuna. Þetta jafnast að mínu mati á við að bjóða Gaddafi eða Mugabe velkomna til landsins. Ég gæti tekið grófari dæmi en ég ætla ekki að nefna nafnið "Hitler", það er bannað í svona umræðum.

Þetta eru aðeins tvö "stór" mál sem allir þekkja en svo langt frá því að vera einu dæmin. Yfirgangur stjórnvalda blasir reglulega við í kvöldfréttunum og við hreyfum litlum mótmælum. Við höfum það svo "gott" að við erum búin að gleyma því að það er aðeins einn aðili sem getur veitt valdamönnum aðhald og það erum við sjálf, almenningur. Við verðum stundum að líta upp úr bankabókunum og í kringum okkur, hugsa út í það í hverskonar þjóðfélagi við viljum lifa og reyna að stuðla að því að stjórnvöld séu að vinna samkvæmt þeirri sýn. Of oft hefur það gerst í sögunni að réttlætiskenndin sofnar á verðinum á meðan frelsið kafnar í húrrahrópum fyrir keisaranum.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin