...

28. nóvember 2005

Ég veit svei mér þá ekki hvað er að gerast með hárið á mér. Hraustar hersveitir grárra hára fara brennandi og nauðgandi um vangana á mér og virðast vera að sigra hverja stórorrustuna á fætur annarri gegn rauða hernum. Og til að bæta gráu ofan á svart (pun intended) ljær það mér bara alls ekki þann virðulega blæ sem mér var lofað. En auðvitað átti ég að vita að það er ekkert grín að ætla að gefa mér virðulegt yfirbragð, og það er örugglega nokkrum hárum ofviða.

Og það er farið að færast meira fjör í hárleikinn, því nú eru líka svört hár byrjuð að stinga sér út hér og þar í skegginu á mér og það stefnir allt í að ég verði svartskeggjaður innan skamms. Ég er að skipta litum eins og hver annar snjótittlingur.

Ég er búinn að kalla saman alla mína færustu sérfræðinga á sviði myndvinnslu til að gera líkan af þróuninni og meðfylgjandi mynd sýnir hvernig ég mun líta út eftir tuttugu ár samkvæmt áætlunum þeirra. Það verður gaman að sjá hvort þeir hafa rétt fyrir sér.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin