Hugi Þórðarson

Lambalæri kaffært í góðmeti

Alveg eins og fullnæging, nema bara að maður borðar hana.

Innihald

 • Lambalæri, ca. 2 kíló
 • 2 krukkur af hvítum baunum, með safanum
 • Hálf flaska af rauðvíni
 • Sletta af marsala, púrtvíni eða sérríi má sleppa)
 • 2 stórir laukar
 • 10 skalottulaukar. Eða 11. Eða 12.
 • 6 tómatar, afhýddir og skornir í fernt
 • 3msk af tómatpúrru
 • Salt
 • Svört piparkorn
 • 10 hvítlauksrif
 • Slatti af svörtum ólífum
 • 2 lárviðarlauf
 • 3 greinar af fersku rósmaríni

Aðferð

 1. Skelltu lærinu í öflugan steikarpott.
 2. Grófsaxaðu laukinn og skalottulaukinn
 3. Afhýddu tómatana og skerðu þá í ferninga (það er þægilegt að afhýða tómata með því að skera kross í rassinn á þeim og smella þeim svo í sjóðandi vatn í nokkrar sekúndur - þá rennur hýðið af).
 4. Helltu öllu dótinu í pottinn, yfir lærið.
 5. Settu lokið á pottinn og smelltu því inn í ofn. Lærið á að elda í 4 tíma á 140°C, en svo má kýla á það með 220°C í svona hálftíma undir lokin. Hrærðu reglulega hvoru í pottinum, og austu mallinu yfir lærið í leiðinni.

Þegar eldamennskunni lýkur, þá er grænmetið búið að draga í sig alla fituna úr lærinu og kjötið bókstaflega dettur af beininu. Kjörið að bera fram með feitri kartöflumús.

Fyrstu fjóra tímana í ofninum er hægt að framkvæma daginn áður.

Það er gott að setja nokkrar ansjósur með í pottinn. Ansjósubragðið hverfur alveg en þær styrkja bragðið af lambakjötinu mikið.


Umsagnir

Vertu fyrst(ur) til að skrifa um þessa uppskrift og gefa henni einkunn.

Þú verður að skrá þig inn til að geta tjáð þig um uppskriftir.