Flokkar

Morgunverðarburritos

Kalli sendi þessa uppskrift inn 22. apríl 2012.

Ég hef aldrei borðað burrito í Mission í San Fransisco en þess fyrir utan er líklega ekkert heilagt þegar kemur að morgunverðarburritos. Taktu einhvern morgunverðarmat og vefðu honum í tortillabrauð og þú ert kominn með morgunverðarburrito. Hér kemur haldgóð uppskrift til að vinna út frá.

Þessir morgunverðarburritos eru einfaldir og auðveldir að gera. Það eina sem tekur einhvern tíma er að steikja kartöflurnar. Þeir innihalda flest það sem ég myndi vilja sjá í morgunverði með (pseudo) mexíkóskum brag: egg, kartöflur og auðvitað beikon. Það eina sem er betra gegn timburmönnum er hugsanlega egg og beikon samloka.

Uppskriftin er hugsuð sem veglegur morgunverður fyrir einn. Margfaldið hana eftir því.

Innihald

  • 2 miðlungsstórar tortillas
  • 3 egg
  • 1 miðlungsstór kartafla (af tegund sem er góð til steikingar)
  • Ca. eitt bréf af góðu beikoni – sex sneiðar passa vel í tvo burritos en ef þú átt eina eða tvær sneiðar umfram er tilvalið að steikja þær líka til að borða einar og sér. Mmmmm… beikon!
  • Ca. hálft jalapeños eða eftir smekk (og stærð)
  • Smá tacosósa – mér líkar vel við Santa Maria Hot Taco Sauce en hvað sem þér líkar við, eða hefur, virkar örugglega vel
  • Sriracha Hot Chili Sauce ef þú vilt hafa aðeins meiri bruna og auðvitað viltu það
  • Smá smjörlíki eða hvaða feiti sem þú vilt hafa í pönnunni þegar þú steikir beikonið. Örlítið ætti að duga.

Aðferð

  1. Flysjaðu kartöfluna og skerðu í hóflega litla teninga. Saxaðu eins mikið af jalapeños og þú vilt nota.
  2. Steiktu beikonið í örlítilli feiti eftir smekk.
  3. Taktu beikonið til hliðar og lækkaðu hitann á hellunni niður í um það bil hálfan styrk. Settu kartöfluteningana í pönnuna og steiktu þá í feitinni af beikoninu. Ég krydda með smá salti og pipar en einhverjir vilja kannski forðast saltið þar sem það er svo mikið af því í beikoninu. Piparinn gæti líka virkað sem óþarfi hjá sumum. Kartöflurnar eiga að verða fallega gullbrúnar. Til að fá þær vel gegnumsteiktar gæti verið best að byrja kannski á 4/6 styrk og færa sig svo niður um eitt til tvö stig. Hrærðu í þeim við og við.
  4. Þegar kartöflurnar eru nánast tilbúnar skaltu bæta jalapeños í pönnuna og hræra smá í þar til jalapeñosið hefur tekið smá áferð frá steikingunni.
  5. Þá er kominn tími til að brjóta þrjú egg í pönnuna og hræra upp í öllu. Ég er gjarn á að salta og pipra léttilega aftur núna en það sem ég sagði áður um það á enn frekar við hér.
  6. Nú er gott að hafa tortillurnar tilbúnar fyrir fyllinguna. Smurðu tacósósu í þunnu lagi, eða eftir smekk, frá ca. miðju og út að einni brún. Þetta verður undirlagið.
  7. Þegar eggin eru tilbúin set ég eggja- og kartöflublönduna á tortillurnar þar sem ég hef smurt þær með tacósósu. Slettu Srirachasósu yfir – eða ekki – og leggðu svo þrjár sneiðar af beikoni í hverja tortilla. Vefðu upp og njóttu.

Morgunverðarburritos verða enn betri með góðum bjór. Ég segi IPA í léttari kantinum með smá ávexti í bragðinu. Til dæmis Brewdog Punk IPA.

Ef þú vilt eitthvað aðeins mexíkóskara gæti dökkur lager í Vienna stíl með smá sætu og votti af ávexti í bragði, eins og til dæmis mexíkóski Negra Modelo, virkað vel.


Umsagnir

Engar umsagnir